Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir viðræður hans og sóttvarnalæknis við Pfizer um bólusetningu stórs hluta þjóðarinnar við Covid-19 í rannsóknarskyni ganga hægt. Hann sé þó ekki alveg búinn að gefast upp á þeim.
Þá segir Kári að sá mikli fjöldi bóluefnaskammta sem Ísrael hefur tryggt sér frá Pfizer sýni hvað það geti verið „mikilvægt að geta hagað sér eins og sjálfstæð þjóð“.
Eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi hafa Ísraelar samið um nægilega marga bóluefnaskammta frá Pfizer svo hægt sé að bólusetja alla Ísraela 16 ára og eldri við Covid-19 fyrir marslok eða jafnvel fyrr. Kjarninn sagði samning Ísraels og Pfizer sambærilegan þeim sem Kári og Þórólfur vonuðust eftir. Það segir Kári ekki rétt.
„Það hefur ekkert með þessa tilraun að gera. Þeir voru bara að kaupa bóluefni frá Pfizer,“ segir Kári um það.
Kári og Þórólfur höfðu lagt til að 70% Íslendinga yrðu bólusett. Með því hefði átt að koma í ljós hvaða áhrif það hefði, bæði á þá sem fengju bólusetningu og þá sem fengju hana ekki.
„Tilraunin sem við lögðum til var auðvitað að staðfesta það að þetta hugtak hjarðónæmi væri raunverulegt. Hjarðónæmið átti að nást með því að bólusetja eða gera ákveðinn hundraðshluta þjóðarinnar ónæman og hversu stór sá hundraðshluti þyrfti að verða til þess að fá smitstuðulinn niður fyrir einn sem er markmiðið,“ segir Kári.
Þar sem Ísraelar ætla aftur á móti að bólusetja enn stærri hluta þjóðarinnar er ekki um sömu hugmynd að ræða, að sögn Kára.
Hann telur að velgengni Ísraela sýni hvað það sé mikilvægt fyrir ríki að geta staðið á eigin fótum.
„Þetta er bara dæmi um það hvað það getur verið mikilvægt að geta hagað sér eins og sjálfstæð þjóð óháð öðrum, það er það sem Ísrael er að gera. Við ákváðum að haga okkur eins og hluti af hóp sem var ekkert endilega slæm ákvörðun að gera í upphafi en það er að koma í ljós núna að það er ekki endilega að þjóna okkar hagsmunum eins vel og það hefði getað gert ef við hefðum hagað okkur eins og sjálfstæð þjóð óháð öðrum,“ segir Kári.
Hefði þá verið líklegra að við hefðum náð samningum um þessa tilraun ef Ísland hefði ekki verið í samstarfi við ESB?
„Nei. Það var ekkert óskynsamleg ákvörðun á sínum tíma að slást í hópinn með Norðurlöndunum og Evrópusambandinu en það er að koma í ljós núna að Evrópusambandið hefur staðið sig býsna illa,“ segir Kári.
Um viðræður hans og Þórólfs við Pfizer segir Kári: „Það lítur út fyrir að þetta ætli ekki að ganga hjá okkur.“
Er viðræðunum þá lokið?
„Það þarf ekki að vera. Að minnsta kosti er þetta ekki að hreyfast mjög hratt, svo mikið er víst. Ég er kominn mjög nálægt því að gefast upp á þessu en ég er ekki búinn að gefast alveg upp.“