„Við erum á viðbúnaðarstigi 1 vegna þess að farfuglar eru ekki farnir að koma,“ sagði Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir alifuglasjúkdóma hjá MAST, um viðbrögð hér við fuglaflensufaraldri sem nú breiðist út í Evrópu.
Hún sagði að líklega yrði viðbúnaðarstigið hækkað um leið og farfuglar færu að koma.
Flest fuglaflensutilfellin í Evrópu síðustu mánuði stafa af skæðri veiru af gerðinni H5N8. Hún hefur greinst í villtum fuglum og fuglum í haldi. Villtir fuglar hafa mesta þýðingu fyrir útbreiðsluna. Fuglaflensan er komin á slóðir íslenskra farfugla og það veldur áhyggjum.