Bólusetningu hér á landi við Covid-19 verður lokið um mitt sumar, samkvæmt umboðsmanni Íslands, Svíþjóðar og Noregs í bóluefnamálum. Evrópusambandið hefur eyrnamerkt Íslandi yfir milljón skammta af bóluefni gegn Covid-19.
Greint er frá þessu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins og rætt við Richard Bergström, sem kallast gæti umboðsmaður áðurnefndra Norðurlanda í bóluefnamálum.
Hann segir að allt útlit sé fyrir að í vor gerist hlutirnir hratt en vonir standa til að fimm bóluefni komi á markað í vor. Það þýði að bólusetningu ljúki um mitt sumar í Svíþjóð, Noregi, á Íslandi og í öllum ríkjum Evrópusambandsins.
Lyfjastofnun hefur borist ein tilkynning til viðbótar um mögulega alvarlega aukaverkun bóluefnis Pfizer og BioNTech gegn Covid-19. Öldruð manneskja, sem fékk bólusetningu í lok síðasta árs, lést fyrir skömmu.
Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir í samtali við RÚV að vegna þess hve löngu eftir bólusetningu andlátið varð sé ekki vitað hvort það verður tekið inn í sérstaka rannsókn á andlátum eftir bólusetningar.
Alvarlegar tilkynningar vegna aukaverkana eru nú orðnar sex, þar af eru fimm andlát.