Kyrrsetningar krafist á Bræðraborgarstíg

Bruninn hræðilegri á Bræðraborgarstíg í sumar.
Bruninn hræðilegri á Bræðraborgarstíg í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðbrandur Jóhannesson, lögmaður þeirra sem bjuggu á Bræðraborgarstíg 1 sem og aðstandenda þeirra sem létust í brunanum þar í sumar, hefur farið fram á kyrrsetningu á eignunum Bræðraborgarstíg eitt og þrjú, eða söluverðmæti þeirra. Þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is í dag. 

Gerð þess efnis verður tekin fyrir í næstu viku hjá sýslumanni og verður þá staðfest eða hafnað. Verði gerðin staðfest þarf að höfða staðfestingarmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur innan viku frá því gerðinni lauk. Í sama dómsmáli yrðu skaðabótakröfur umbjóðenda Guðbrands teknar fyrir. 

Húsin tilheyra fyrirtækinu HD-verk og er kyrrsetningarkrafan gerð til að tryggja fullnustu skaðabótakrafnanna. 

Umbjóðendur Guðbrands telja sautján manns. Um er að ræða fólk sem varð fyrir líkams- og eignatjóni við brunann og aðstandendur þeirra sem létust. Skaðabótakrafan er upp á tugi milljóna. 

Guðbrandur lagði skaðabótakröfur fram í haust fyrir hönd sömu umbjóðenda gagnvart aðilanum sem ákærður er fyrir að hafa kveikt í húsinu. Samkvæmt undirmatsgerð er hann metinn ósakhæfur en beðið er yfirmats. Guðbrandur segir í samtali við mbl.is að þrátt fyrir að það yrði endanleg niðurstaða gætu umbjóðendur hans átt skaðabótarétt samkvæmt Jónsbók, nánar tiltekið mannhelgisbálk kafla 8 um óðs manns víg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert