„Þetta er allt í lausu lofti“

Kári Stefánsson forstjóri Decode.
Kári Stefánsson forstjóri Decode. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Ég vona að allt sem hann hefur sagt sé rétt og satt en ég er ofboðslega hræddur um að hann hafi ekki jafn mikið til síns máls eins og ég vildi að hann hefði,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is spurður út í ummæli Richards Bergströms, sem fer fyrir bóluefnadreifingu á Íslandi, Svíþjóð og Noregi innan ESB, í viðtali við RÚV í gær.

Þar segir Bergström raunhæft að Ísland klári bólusetningar í sumar, á sama tíma og nágrannaþjóðirnar.

„Hann segir að við fáum 2.735 skammta frá Moderna í mars, 20 þúsund frá Pfizer, og 68 þúsund frá AstraZeneca. Sko, í fyrsta lagi hefur AstraZeneca ekki gefið út neinar yfirlýsingar um hvenær þau komi til með að senda bóluefni og jafnvel þó að þetta væri allt saman rétt þá væri þetta býsna lítill hundraðshluti af samfélaginu sem verður bólusettur með þessu bóluefni. Þannig að allt sem á eftir kemur er enn þá í lausu lofti og við höfum ekkert fyrir okkur annað en orð Svía nokkurs sem býr í Sviss,“ segir Kári. 

„Ég bara vona að þetta sé rétt en ég á dálítið erfitt með að taka þessu sem staðfestingu á nokkrum sköpuðum hlut.“

Óskastaðan er ferðasumar

Kári segir að óskastaðan hefði verið að bólusetja þjóðina á fyrsta ársfjórðungi ársins þannig að hægt hefði verið að hefja hérna kraftmikla ferðaþjónustu í sumar. Bergström talar eins og áður segir eins og í besta falli verði bólusetning þjóðarinnar kláruð í sumar. 

„Íslenskt samfélag hefur ekkert í höndunum sem ætti að láta okkur líða eins og við vitum að það verði búið að bólusetja hér alla um mitt sumar. Það vantar allar dagsetningar og magn sem passar við dagsetningar á því hvenær við fáum bóluefni. Þetta er allt í lausu lofti,“ segir Kári. 

„Mér finnst það mjög óþægilegt en svo sannarlega vona ég að þessi Svíi hafi rétt fyrir sér í alla staði,“ bætir hann við.

Eðlilegt að slást í för með öðrum

Hann segir eðlilegt að stjórnvöld á Íslandi hafi ákveðið að slást í för með Norðurlöndunum og að Norðurlöndin skuli hafa ákveðið að hengja sig á Evrópusambandið. „Það sem í mínum huga er slæmt er að það lítur út fyrir að Evrópusambandið hafi verið klaufalegt í sínum samningum, að minnsta kosti á Evrópusambandið mjög erfitt með að veita stjórnvöldum upplýsingar um hvenær bóluefni komi.“

Hann bendir á að ekki sé verið að tala um svör frá heilbrigðisráðuneytinu sem hefur séð um þetta fyrir Íslands hönd, „Hér er maður nokkur ótengdur okkur sitjandi úti í Sviss sem segir okkur að svona muni þetta gerast. Það er gjörsamlega fyrir neðan allar hellur ef við höfum samið við Evrópusambandið að ef upplýsingarnar liggja fyrir og staðfesting á því að bóluefni komi nægilega fljótt að þær upplýsingar skuli ekki liggja hjá stjórnvöldum,“ segir Kári.

Hann bætir því við að starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins hafi staðið sig vel í því sem að þeim snýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert