Fyrsta sending Moderna í fyrramálið

Moderna varð annað bóluefnið í Bandaríkjunum til að fá bráðaleyfi.
Moderna varð annað bóluefnið í Bandaríkjunum til að fá bráðaleyfi. AFP

Fyrsta sending bóluefnisins sem bandaríska fyrirtækið Moderna hefur þróað er væntanlegt til landsins í fyrramálið. Það þykir vera nokkuð auðvelt í flutningum þar sem lyfið geymist við hærri hita en Pfizer-lyfið sem þarf að vera í um -70° gráðum. Bóluefni Moderna geymist hins vegar við 15-20 gráða frost sem einfaldar flutning þess umtalsvert.

Við flutninginn er notaður sérhæfður lyfjaflutningabíll í eigu TVG-Zimsen sem hannaður er út frá ströngustu kröfum um lyfjaflutninga og sérstaklega hannaður fyrir íslenskar aðstæður. Bílstjórinn hefur yfirsýn yfir hitastig bílsins sem er með einangruðum hurðum og hraðlokandi fellitjaldi að aftan svo ekki tapist hiti úr bílnum við lestun og losun. 

Ferðalag bóluefnisins hefst á Spáni þar sem framleiðslan fer fram en sendingin kemur til Íslands í fyrramálið úr vöruhúsi í Belgíu þar sem efninu er pakkað og hýsing fer fram. Því næst fer sendingin í flug til Íslands þar sem starfsfólk sem hefur verið sérþjálfað til lyfjaflutninga tekur við keflinu.

Lyfjastofnun hefur sett upp sérstaka síðu með upplýsingum um bóluefnið og virkni þess. En helsta virkni þess felst í að örva ónæmiskerfi líkamans með því að fá líkamann til að framleiða mótefni gegn veirunni sem veldur Covid-19. Í því eru efni sem kallast mótandi ríbósakjarnsýrur sem senda skilaboð sem frumur líkamans geta notað til að framleiða gaddaprótínið sem er einnig á veirunni. Frumurnar mynda síðan mótefni gegn gaddaprótíninu til að berjast gegn veirunni.

Efninu er dælt í tveimur 0,5 ml skömmtum í upphandleggsvöðva. Ráðlagt er að seinni skammturinn sé gefinn 28 dögum eftir þann fyrri. 

Sérstakur lyfjaflutningabíll mun ferma bóluefnið frá Moderna.
Sérstakur lyfjaflutningabíll mun ferma bóluefnið frá Moderna. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert