Hægt að vísa fólki sem neitar úr landi

Grímuklæddir farþegar í Leifsstöð. Útlit er fyrir að þeir sem …
Grímuklæddir farþegar í Leifsstöð. Útlit er fyrir að þeir sem vilja ekki fara í sýnatöku þurfi að sæta 14 daga sóttkví í farsóttarhúsi við komuna til landsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar, segir að það verði ekki flókið í framkvæmd að skylda fólk sem vill ekki fara í tvær sýnatökur með sóttkví á milli í 14 daga sóttkví í farsóttarhúsi. Fólkið verður væntanlega flutt af flugvellinum í bíl frá brunavörnum.

Harðneiti fólk bæði að fara í sýnatöku og farsóttarhús er mögulegt að vísa því úr landi, ef ekki er um að ræða fólk sem býr hérlendis, að sögn Sigurgeirs.

Hingað til hef­ur fólk getað valið hvort það fari í tvær sýna­tök­ur með fimm daga sótt­kví á milli við kom­una til lands­ins eða 14 daga sótt­kví. Fáir hafa valið síðar­nefnda kost­inn en sóttvarnalækn­ir lagði til við heil­brigðisráðherra að all­ir sem hann veldu yrðu skyldaðir í sóttvarna­hús. Útlit er fyr­ir að heil­brigðisráðherra samþykki það. 

„Þetta verður ekkert flókið í framkvæmd. Við höfum staðið í því undanfarið að tala við fólk sem ætlar í 14 daga sóttkví og ekki í sýnatöku. Við höfum snúið mörgum frá því og sent þá í sýnatöku. Þannig höfum við náð að finna smit. Svo höfum við líka sent fólk í farsóttarhús í svokölluðum Covid-flutningi sem brunavarnir sjá þá um. Það er bara þannig sem þetta verður,“ segir Sigurgeir. 

Líklega munu færri velja 14 daga sóttkví

Eins og Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, reiknar Sigurgeir með því að enn færri velji tveggja vikna sóttkví þegar þeim er skylt að dvelja í farsóttarhúsinu á meðan. 

Aðspurður segir Sigurgeir það ekki lögreglunnar að segja til um lagalegan grundvöll aðgerðanna. Heilbrigðisráðherra þurfi að svara fyrir það. 

„Sóttvarnalæknir leggur þetta til og heilbrigðisráðherra þarf að taka þessa ákvörðun. Heimildir sóttvarnalæknis eru mjög rúmar.“

Ef fólk harðneitar að fara í farsóttarhúsið og sýnatöku, verður það þá beitt valdi?

„Við eigum eftir að sjá til með það. Það er líka hægt að vísa fólki frá landinu ef um er að ræða útlendinga. Beita frávísun, hleypa fólki ekki inn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert