Ansi kalt hefur verið á landinu undanfarna daga og fór frost mest niður í 17,9 á Þingvöllum í nótt. Í Reykjavík fór frost niður í rúm 8 stig.
Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir þó smám saman fara að hlýna á morgun og að þá sé kuldakastinu lokið í bili þótt áfram verði nokkuð kalt í nótt og á morgun. Mjög kalt geti orðið í svona lygnu og heiðskíru veðri.
Á morgun fer vindur vaxandi og dregur hratt úr frosti og verður orðið frostlaust við suður- og vesturströnd landsins annað kvöld. Þá er búist við nokkurri úrkomu, líklega rigningu við ströndina en slyddu inn til landsins.
Á miðvikudag fer svo að hlýna víðar á landinu, en Skagfirðingaveita hefur varað við því að komið sé að þolmörkum. Þorsteinn segir að lengur verði að hlýna fyrir norðan, ekki fyrr en aðfaranótt miðvikudags, og því þurfi kannski að spara vatnið þar örlítið áfram.