Lýsa vantrausti á stjórn og óperustjóra

Elmar Gilbertsson og Herdís Anna Jónasdóttir í hlutverkum sínum í …
Elmar Gilbertsson og Herdís Anna Jónasdóttir í hlutverkum sínum í La Traviata. Mynd úr safni. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir

Félagsfundur Klassís, Fagfélags klassískra söngvara á Íslandi, lýsir yfir vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur, vegna stjórnunarhátta stofnunarinnar á undanförnum árum, segir í tilkynningu sem Klassís hefur sent frá sér.

Í tilkynningu kemur fram að á fjölmennum fjarfundi félagsins í gær hafi þetta verið samþykkt. Þar segir að söngvarar innan vébanda félagsins hafi sýnt langlundargeð gagnvart stjórnunarháttum Íslensku óperunnar um langt skeið en nú sé það þrotið. 

„Íslenska óperan var stofnuð fyrir rúmum 40 árum úr grasrót íslenskra söngvara með það fyrir augum að skapa starfsvettvang fyrir íslenska óperusöngvara og flytja óperur fyrir þjóðina. Söngvarar hafa alla tíð stutt óperuflutning á Íslandi með sínu framlagi og haft ríkan skilning á þröngri fjárhagsstöðu óperunnar. Söngvarar hafa þannig oftar en ekki sungið fyrir Íslensku óperuna fyrir brot af því sem þeir fá greitt fyrir sína vinnu erlendis.

Aðkoma söngvara að stjórn Íslensku óperunnar var mikil í upphafi en hefur farið stöðugt minnkandi og er nú svo komið að aðkoma þeirra er engin. Dæmi eru um að stjórnin hafi markvisst komið í veg fyrir aðkomu söngvara, til dæmis með því að breyta samþykktum sínum á lokuðum fundi til að koma í veg fyrir að réttilega tilnefndir söngvarar tækju sæti í stjórn. Undanfarin ár hefur stjórn og óperustjóri Íslensku óperunnar endurtekið sýnt áhugaleysi á að heyra sjónarmið, umkvörtunarefni og tillögur frá söngvurum og öðru fagfólki á sviði óperulistar.

Íslenska óperan er nánast eini starfsvettvangurinn fyrir óperusöngvara á Íslandi, enda eina stofnunin sem fær fé úr ríkissjóði eyrnamerkt óperustarfsemi. Í krafti einokunarstöðu sinnar og aðstöðumunar hefur þessi sjálfseignarstofnun aðeins boðið söngvurum gallaða verksamninga, sem gera ákvæði sem vísa í kjarasamning við stéttarfélögin (FÍH og FÍL) að engu, eins og nýfallinn dómur hefur nú leitt í ljós. Söngvarar spyrja sig í hvaða tilgangi Íslenska óperan hafi gert þeim að undirrita samninga sem innihalda marklaus ákvæði, sem óperustjóri sjálfur telur vera úrelt,“ segir enn fremur í tilkynningu. 

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri. mbl.is/Hari

„Stjórnunarhættir og stefna Íslensku óperunnar í kjaramálum söngvara hafa leitt til þess að laun söngvara hafa lækkað að raungildi undanfarin ár. Ennfremur eru dæmi um töluverðan óútskýrðan launamun kynjanna. Trúnaðarákvæði eru í samningum Íslensku óperunnar við söngvara, enda hefur óperustjóri nýtt sér þá leynd og ítrekað reynt að höggva í samstöðu söngvara með ýmsum hætti. Sjá má mikla fylgni milli þess að fólk kvarti eða leiti réttar síns og þess að fá ekki aftur vinnu hjá Íslensku óperunni, eða möguleika á vinnu með fyrirsöng.

Óperustjóri hefur einhliða breytt ákvæðum um flytjendarétt og tekið út rétt til greiðslu vegna sýninga í sjónvarpi og ennfremur bætt við ákvæðum um að söngvarar afsali sér rétti til viðbótargreiðslna vegna streymis innanlands sem utan. Um leið og þetta er gert hefur streymi sýninga Íslensku óperunnar á alþjóðlegum streymisveitum orðið að nýrri tekjulind fyrir óperuna.

Félagsmenn Klassís telja það endurtekið hafa sýnt sig að núverandi óperustjóri og stjórn Íslensku óperunnar bera ekki hag óperusöngvara fyrir brjósti og lýsa því yfir fullkomnu vantrausti á bæði stjórn og óperustjóra Íslensku óperunnar, Steinunni Birnu Ragnarsdóttur.

Sögulegur vendipunktur stendur nú fyrir dyrum með undirbúningi að stofnun þjóðaróperu á Íslandi. Vonandi munu slíkir stjórnunarhættir, sem íslenskir óperusöngvarar hafa þurft að láta sér lynda af hálfu Íslensku óperunnar undanfarin ár, þar með verða úr sögunni og fagmennska hafin til vegs og virðingar á ný,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert