Mögulegar breytingar á reglugerð í vinnslu

Heilbrigðisstarfsfólk í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Heilbrigðisstarfsfólk í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Mögulegar breytingar á reglugerð um aðgerðir á landamærunum vegna kórónuveirunnar eru í vinnslu. Þar með talið er verið að skoða lagastoð fyrir því að skylda fólk í farsóttarhús í þeim tilvikum þar sem fólk sem er að koma til landsins velur að fara í 14 daga sóttkví í stað þess að fara í tvær sýnatökur með fimm daga sóttkví á milli.

Þetta segir Iðunn Garðarsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, sem vill ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu. 

Fyrr í dag greindi Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar, frá því í samtali við mbl.is að það verði ekki flókið í framkvæmd að skylda fólk í farsóttarhúsið. Verður það væntanlega flutt af flugvellinum í bíl frá brunavörnum.

Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg.
Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg. Ljósmynd af hótelinu af Booking.com

Harðneiti fólk bæði að fara í sýnatöku og í farsóttarhús er mögulegt að vísa því úr landi, ef það er ekki búsett hérlendis, að sögn Sigurgeirs. Fáir hafa valið síðarnefnda kostinn. Sóttvarnalæknir lagði til við heilbrigðisráðherra að allir sem hann veldu yrðu skyldaðir í farsóttarhús.

Sigurgeir sagði að það væri heilbrigðisráðherra að svara fyrir um lagalegan grundvöll aðgerðanna. „Sóttvarnalæknir leggur þetta til og heilbrigðisráðherra þarf að taka þessa ákvörðun. Heimildir sóttvarnalæknis eru mjög rúmar,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert