Jón Sigurðsson Nordal
Umdeildar smitrakningaraðferðir sem beitt var í kjölfar kórónuveiruhópsmits, sem upp kom á barnum Irishman Pub í september í fyrra, eru tilefni umræðu um valdheimildir sóttvarnalæknis til öflunar persónuupplýsinga.
Þetta segir Hörður Helgi Helgason, lögmaður og fyrrverandi settur forstjóri Persónuverndar. Þegar í ljós kom að margir viðskiptavinir barsins gætu hafa orðið útsettir fyrir smiti brugðu almannavarnir og sóttvarnalæknir á það ráð að hafa uppi á gestum með upplýsingum um kortafærslur sem gerðar voru umrætt kvöld.
Þannig fékk smitrakningarteymið símanúmer gesta og gat sent þeim boð í skimun með smáskilaboðum. Í grein sem Hörður Helgi skrifaði og birt hefur verið í Úlfljóti, tímariti laganema við Háskóla Íslands, segir hann smitrakningaraðferðir sem þessar geta skilið rekstraraðila eftir í „lagalegu tómarúmi“ ef lagaskylda er ekki nógu skýr.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag bendir hann einnig á að upplýsingar um áfengisnotkun heyri til „viðkvæmra persónuupplýsinga“ í skilningi persónuverndarlaga.