Kirkjugarðasamband Íslands (KGSÍ) og kirkjugarðaráð segja í umsögnum um frumvarp Bryndísar Haraldsdóttur o.fl. um aukið frelsi í varðveislu eða dreifingu ösku látinna að í undirbúningi sé að breyta lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.
Rétt sé að ljúka heildarendurskoðun á þeim lögum og ræða í því sambandi hvort rýmka eigi heimildir um dreifingu ösku látinna, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Kirkjugarðaráð, sem hefur yfirumsjón með kirkjugörðum landsins, bendir m.a. á það að frumvarpið virðist ekki gera ráð fyrir því að slík dreifing ösku geti stangast á við önnur lög, t.d. um hollustuhætti. Ekki verði annað ráðið af frumvarpinu en að hægt verði að geyma ösku látinna og/eða dreifa henni hvar sem er án takmarkana. Þá bendir kirkjugarðaráð á að öskudreifing hafi verið samykkt á Alþingi 8. apríl 2002. Kirkjugarðaráði hafi ekki borist kvartanir vegna núverandi fyrirkomulags öskudreifingar og því telji ráðið ekki brýna nauðsyn á að rýmka heimildir um dreifingu ösku að svo stöddu.