Heilbrigðisráðherra telur útlit fyrir að tugir þúsunda Íslendinga verði bólusettir fyrir sumarið og þáttaskil verði í faraldrinum fyrir þann tíma. Hún er „algjörlega ósammála“ yfirlækni á ónæmisfræðideild Landspítala sem sagði um helgina að það hafi verið mistök hjá íslenskum stjórnvöldum að fylgja Evrópusambandinu eftir í bóluefnakaupum.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur áður sagt útlit fyrir að þorri þjóðarinnar verði bólusettur fyrir sumarið. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í samtali við mbl.is um helgina að hann væri hræddur um að ekki væri útlit fyrir að Ísland fengi bóluefnaskammtana jafn fljótt og Richard Bergström, sem fer fyrir bóluefnadreifingu á Íslandi, Svíþjóð og Noregi innan ESB, vildi meina í samtali við RÚV um helgina. Bergström vildi meina að bólusetningu hérlendis yrði lokið í sumar.
Gerir þú enn ráð fyrir því að stór hluti þjóðarinnar verði bólusettur við Covid-19 fyrir sumarið?
„Já, ég geri ráð fyrir því að við náum þeim árangri að það verði þáttaskil í faraldrinum fyrir þann tíma,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.
Um hversu stóran hluta ræðir?
„Við þurfum að minnsta kosti að beina bóluefninu inn í þá hópa svo það hafi sem mest að segja varðandi sóttvarnaráðstafanir að öðru leyti. Ég veit ekki nákvæmlega hvaða tala það er. Það eru þessir forgangshópar, það er framlínan í heilbrigðisþjónustu og það eru elstu íbúarnir, þeir sem eru útsettastir og eru líklegastir til að verða mjög veikir. Þetta eru einhverjir tugir þúsunda. Ég vænti þess að við getum kveðið skýrar á um þetta þegar við erum með fleiri afhendingaráætlanir í höndunum,“ segir Svandís.
Þjóðverjar, sem eru í samstarfi við Evrópusambandið (ESB) vegna bóluefna, hafa einnig samið um bóluefnaskammta utan samstarfsins við ESB. Spurð hvort íslensk heilbrigðisyfirvöld vinni að því að fá fleiri skammta af bóluefni hingað til lands hraðar utan samstarfsins við Evrópusambandið segir Svandís:
„Við erum náttúrulega í þessu samstarfi við Evrópusambandið og ég held að það taki allir eftir því að það eru góðar fréttir á degi hverjum, bæði um aukna framleiðslu og aukið framboð. Afhendingaráætlanir eru að birtast frá degi til dags svo þetta er allt saman að skýrast.“
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans, sagði í Víglínunni um helgina að það hafi verið mistök hjá íslenskum stjórnvöldum að fylgja Evrópusambandinu eftir í bóluefnakaupum. Svandís segist „algjörlega ósammála því“.
„Ég tel að þetta hafi verið farsæl og skynsamleg ákvörðun vegna þess að þarna erum við að tryggja það að við séum í sömu stöðu og þessi stóru og öflugu ríki. Við njótum þá góðs af samningsstöðu þeirra og líka því fjármagni sem hægt var að setja í þróun á fyrri stigum. Það eru auðvitað margir á sviðinu sem tala um það að það ætti að gera hlutina öðruvísi eða það hefði átt að gera eitthvað öðruvísi á einhverjum öðrum tíma en ég hef mikla trú á þessari nálgun sem við erum að beita og er þess fullviss að þessi ákvörðun hafi verið rétt á sínum tíma og tel að það eigi eftir að koma í ljós.“