Starfsmenn Distica í Garðabæ tóku í morgun við 1.200 skömmtum af bóluefninu sem lyfjafyrirtækið Moderna þróaði. Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri er bjartsýn á að ekki muni líða á löngu þar til bóluefni Astrazeneca berist til landsins, en það er í flýtimati hjá lyfjastofnun Evrópu.
mbl.is ræddi við Júlíu Rós þegar efnið kom í hús í morgun og viðtalið má sjá í myndskeiðinu. Hún segir meðhöndlun efnisins vera afar svipaða og Pfizer-bóluefnisins þegar það er komið til landsins en efnið frá Moderna er flutt við minna frost en Pfizer-efnið.
RÚV greinir frá því að 500 skammtar af efninu fari til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítalinn fái 700 skammta fyrir starfsfólk í framlínustörfum en þetta var ekki alveg ljóst þegar rætt var við Júlíu Rós í morgun.
Ferðalag Moderna-bóluefnisins hófst á Spáni þar sem framleiðslan fer fram en sendingin kemur til Íslands í fyrramálið úr vöruhúsi í Belgíu þar sem efninu er pakkað og hýsing fer fram. Því næst fer sendingin í flug til Íslands þar sem starfsfólk sem hefur verið sérþjálfað til lyfjaflutninga tekur við keflinu.
Lyfjastofnun hefur sett upp sérstaka síðu með upplýsingum um bóluefnið og virkni þess. En helsta virkni þess felst í að örva ónæmiskerfi líkamans með því að fá líkamann til að framleiða mótefni gegn veirunni sem veldur Covid-19. Í því eru efni sem kallast mótandi ríbósakjarnsýrur sem senda skilaboð sem frumur líkamans geta notað til að framleiða gaddaprótínið sem er einnig á veirunni. Frumurnar mynda síðan mótefni gegn gaddaprótíninu til að berjast gegn veirunni.
Efninu er dælt í tveimur 0,5 ml skömmtum í upphandleggsvöðva. Ráðlagt er að seinni skammturinn sé gefinn 28 dögum eftir þann fyrri.