Viðbótarmagn er í hettuglösum með bóluefni bandaríska lyfjaframleiðandans Moderna. Viðbótarmagnið er eingöngu hugsað til þess að hægt sé að tryggja tíu skammta í hverju glasi.
Miðað er við fimm skammta úr hettuglösum frá Pfizer, en heimilt er að ná sjötta skammtinum með sérstökum nálum og sprautum. Í fylgiseðli með Moderna-bóluefninu kemur fram að viðbótarmagn bóluefnis sé í hverju glasi, en það sé eingöngu til að hægt sé að tryggja gjöf tíu skammta.
Þeir sem bólusettir eru með bóluefni Moderna fá 0,5 ml skammta en ekki 0,3 ml skammta líkt og bóluefni Pfizer er gefið í. Þá er síðari skammtur bóluefnis Moderna veittur 28 dögum eftir fyrri bólusetningu, en ekki 21 degi seinna líkt og gert er þegar um bóluefni Pfizer er að ræða.
Tólf hundruð skammtar af bóluefni Moderna komu til landsins í morgun frá Belgíu. Lyfjastofnun birti í gær fylgiseðil bóluefnisins.
Í fylgiseðlinum er meðal annars mælst til þess að einstaklingar sem finni fyrir einhverjum mögulegra aukaverkana sem tilgreindar eru í fylgiseðlinum láti lækni eða hjúkrunarfræðing vita. Þar kemur einnig fram að verið geti að tveggja skammta bóluefnagjöfin verndi ekki til fulls alla þá sem fá bóluefnið og ekki er vitað hversu lengi vörnin varir.
Bóluefni Moderna er ekki ætlað börnum yngri en 18 ára, bóluefni Pfizer er miðað við 16 ára aldur.
Í fylgiseðlinum er jafnframt að finna leiðbeiningar um meðhöndlun efnisins. Efnið á að geymast frosið við -25 til -15 gráður og á að vera í upprunalegri öskju til varnar gegn ljósi. Bóluefni Pfizer á að geymast við -90 til -60 gráður.
Þá á að láta efnið þiðna í tvær og hálfa klukkustund við 2-8 gráður áður en það er látið standa við stofuhita í korter fyrir bóluefnagjöf. Hvorki á að hrista það né þynna áður en það er gefið og verður að farga hettuglasinu sex klukkustundum eftir að búið er stinga á það með nál.