Héraðsdómur Reykjaness sakfelldi fyrr í dag karlmann á sextugsaldri fyrir manndráp og dæmdi hann í 14 ára fangelsi fyrir að verða eiginkonu sinni að bana á heimilli þeirra í mars í fyrra.
Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari í málinu, við mbl.is. Dómur héraðsdóms hefur ekki verið birtur, en RÚV greindi fyrst frá málinu.
Konan lést á heimili þeirra hjóna í Sandgerði 28. mars og var eiginmaður hennar ákærður fyrir manndráp 24. júní.
Maðurinn neitaði sök við þingfestingu og féllst dómari þá á að þinghald í málinu yrði lokað.
Aðalmeðferð í málinu átti upphaflega að fara fram í ágúst. Hún tafðist meðal annars vegna þess að dómari málsins við Héraðsdóm Reykjaness var í september skipaður dómari við Landsrétt.
Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi eftir að hann var handtekinn í byrjun apríl og þar til Landsréttur felldi það úr gildi í október.
Hann var látinn laus úr haldi vegna nýrrar matsgerðar um ástæður andláts konunnar. Þar voru fleiri ástæður settar fram sem möguleg skýring á andláti hennar, auk þess sem áverkar á hálsi konunnar voru sagðir geta verið eldri en áður var talið.