Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur veitt Alzheimersamtökunum 7 milljóna króna styrk til verkefnis um jafningjafræðslu á hjúkrunarheimilum til að styrkja starfsfólk sem sinnir umönnun fólks með heilabilunarsjúkdóma.
Alzheimersamtökin fengu 15 milljóna króna styrk á liðnu ári til sama verkefnis, sem hefur samkvæmt tilkynningu farið vel af stað.
Styrkurinn sem nú er veittur er ætlaður til að halda áfram vinnu við verkefnið út árið 2021. Áður hafði ráðherra veitt Háskólanum á Akureyri styrk til að koma á fót sérnámi fyrir ráðgjafa á sviði heilabilunar.
Verkefnið jafningafræðsla á hjúkrunarheimilum er í ætt við t.d. danska verkefnið Demens rejsehold, þar sem teymi fer um öll hjúkrunarheimili og virkjar starfsfólk þar í jafningjafræðslu um umönnun einstaklinga með heilabilun.
Í styrk ráðherra til Háskólans á Akureyri sem veittur var í fyrra og nemur 7 milljónum króna, er stefnt að því að koma á fót sérnámi fyrir ráðgjafa á sviði heilabilunar.
Námið verður 60 ETCS einingar á meistarastigi og lýkur með diplóma. Markmiðið er að auka sérþekkingu á þessu sviði hér á landi í samræmi við aðgerðaáætlun í þjónustu við fólk með heilabilun til ársins 2025.
Háskólinn á Akureyri hefur kynnt ráðuneytinu drög að námsskrá og reiknað er með að námið geti byggst ofan á grunnnám í hjúkrunarfræði, iðjuþjálfun, félagsráðgjöf eða sálfræði. Námið skapar einnig möguleika á að námskeið þess nýtist öðrum fagstéttum eins og lögreglumönnum og öðrum meistaranámsnemum. Stefnt er að því að námið hefjist haustið 2022.