Staðgreiðsla útsvars reyndist heldur meiri á síðasta ári en búist var við, sérstaklega á seinustu mánuðum ársins.
Fram kemur í samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga að útsvar sem innheimt var í staðgreiðslu frá febrúar til desember í fyrra var 4% hærra en á sömu mánuðum á árinu á undan.
Þegar leið að hausti varð staðgreiðslan meiri, einkum í desember, og var 7,2% hærri á tímabilinu júlí til desember í fyrra en á sömu mánuðum 2019. Allmikill munur var þó á staðgreiðslunni milli landshluta. Undir lok nýliðins árs fengu sveitarfélögin greitt útsvar upp á 3,1 milljarð króna, sem hafði verið frestað fyrr á árinu vegna frestunar gjalddaga til að mæta afleiðingum veirufaraldursins. Komu þessar greiðslur í árslok sveitarfélögum nokkuð á óvart. Áætlað er að afkoma A-hluta sveitarfélaga hafi verið neikvæð um tæpa 18 milljarða í fyrra, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.