Ný úttekt verðlagseftirlits ASÍ á breytingum á leikskólagjöldum hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins leiðir í ljós að yfir 300 þúsund króna munur er á hæstu og lægstu gjöldum á ársgrundvelli. Á Seltjarnarnesi hækka leikskólagjöld mest eða um 11% en sömu gjöld lækka um 3,7% í Mosfellsbæ.
Almenn leikskólagjöld miðast við 8 tíma á dag með fæði og í 10 af þeim 15 sveitarfélögum sem úttektin nær til hækkar almennt gjald um 2,4-3,1%. Níundi klukkutími dagsins hækkar mest í Hafnarfirði, ein 9,8% eða um 5.455 kr. Í Mosfellsbæ lækkar níundi tíminn mest eða um 5%.
Munur á hæstu og lægstu samanlögðum leikskólagjöldum fyrir fjölskyldur með tvö börn er 81% eða 31.312 kr. á mánuði sem gerir 313.120 kr. á ári sé miðað við 10 mánaða vistun.
Reykjavík er með lægstu leikskólagjöldin bæði fyrir fjölskyldur með tvö börn á leikskóla og þær sem eru með þrjú börn. Ísafjarðarbær er með hæstu leikskólagjöldin fyrir fjölskyldur með tvö börn á leikskóla en Borgarbyggð hæstu gjöldin fyrir þrjú börn.