Mál Jens Gunnarssonar, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns, er eitt átján mála af sömu rót og Landsréttarmálið, sem tekin verða til efnismeðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu verði sáttum ekki náð. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Jens Gunnarsson var dæmdur í 15 mánaða fangelsi í Landsrétti árið 2018 og Pétur Axel Pétursson í 9 mánaða fangelsi. Ákært var í málinu í nóvember 2016.
Jens var sakfelldur fyrir að hafa veitt nafngreindum brotamanni, Pétri Axel Péturssyni, upplýsingar sem þagnarskylda ríkti um og fyrir að hafa heimtað peninga af honum í SMS-skilaboðum. Mál Péturs er einnig til meðferðar hjá MDE, segir í frétt Fréttablaðsins.
Hæstiréttur synjaði Jens um áfrýjunarleyfi en hann óskaði eftir því meðal annars á þeim forsendum að brot hans væru ósönnuð og sakfelling hefði verið reist á sönnunargögnum sem aflað var með ólögmætum hætti.