Fjórir karlar og kona eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna líkamsárása og fleiri brota síðdegis í gær og í nótt.
Lögreglan handtók karl og konu á sjötta tímanum í gær í íbúð í miðborginni (hverfi 101). Þau eru grunuð um vörslu og sölu fíkniefna, líkamsárás og brot á lyfja- og vopnalögum. Þau eru vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Skömmu fyrir klukkan 1 í nótt var tilkynnt um líkamsárás í miðborginni (hverfi 101) til lögreglu og voru þar þrír menn handteknir grunaðir um líkamsárás og vörslu fíkniefna. Mennirnir voru vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Sá sem varð fyrir árásinni var fluttur til aðhlynningar á bráðadeild Landspítalans en verður síðan einnig vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Maðurinn var með áverka á höndum og víðar að því er segir í dagbók lögreglu.
Maður ók á tvær bifreiðar síðdegis í gær, aðra í Austurbænum (hverfi 108) og hina í Breiðholtinu (109). Eftir seinni áreksturinn hljóp ökumaðurinn frá vettvangi og skildi bifreið sína eftir mjög tjónaða. Ekki urðu slys á fólki en eignatjón. Málið er í rannsókn að því er segir í dagbók lögreglunnar.
Skömmu fyrir miðnætti stöðvaði lögreglan för bifreiðar í Austurbænum (hverfi 108) eftir að henni var ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna
Í sama hverfi var tilkynnt um búðarþjófnað á öðrum tímanum í nótt en þar hafði maður reynt að stela mat- og snyrtivörum.