Kyrrsetningu á Bræðraborgarstíg hafnað

Brunarústir við Bræðraborgarstíg.
Brunarústir við Bræðraborgarstíg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur hafnað kyrrsetningarbeiðni fyrrum íbúa Bræðraborgarstígs 1 og aðstandenda þeirra á eignunum Bræðraborgarstíg 1 og 3. Þetta staðfestir Skúli Sveinsson, lögmaður HD-verks, í samtali við mbl.is.

Skúli segir grundvöll kyrrsetningarkröfunnar hafa verið veikan og skilyrði ekki talin vera fyrir hendi svo fallast mætti á beiðni um kyrrsetningu. Segir hann málið fyrst og fremst byggt á niðurstöðu skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en hann telur þær bersýnilega rangar – sérstaklega þær sem snúa að efri hæðum hússins.

„HMS byggir ranglega á því að lagðar hafi verið inn teikningar til byggingafulltrúa til samþykktar árið 2000. Hið rétta er að það voru lagðar inn svokallaðar reyndarteikningar til byggingafulltrúa það ár en það eru teikningar sem sýna hvernig húsið var þá en snúa ekki að neinum sérstökum breytingum á því sem samþykkja hefði þurft,“ segir Skúli.

Skortur á faglegum vinnubrögðum

Að hans mati fellst villa HMS í því að telja regluverk það sem í gildi var árið 2000 eiga að gilda en hann telur það ekki standast þar sem engar breytingar hafi verið gerðar á efri hæðum hússins árið 2000 né var um að ræða sérstakt samþykki á breytingum. Hann er gagnrýninn á vinnubrögð stofnunarinnar.

„Umbjóðandi minn hefur jafnframt gögn undir höndum sem sýna að aðrar niðurstöður HMS eru rangar svo sem varðandi brunaútgang, sem stofnunin vill meina að hafi verið lokað,“ bætir Skúli við.

„Undarlegt verður að telja að HMS hafi ekki leitað til umbjóðanda míns við vinnu stofnunarinnar að skýrslu sinni þar sem þá hefði verið unnt að upplýsa um málavexti. Ekki verður annað séð en að allnokkuð skorti á fagleg vinnubrögð hjá stofnuninni.“

Skúli Sveinsson, lögmaður HD-verks.
Skúli Sveinsson, lögmaður HD-verks. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert