Boðið verður upp á lifandi tónlist öll kvöld vikunnar á nýjum veitinga- og skemmtistað sem verið er að innrétta í hinu sögufræga húsi, Laugavegi 18, sem á árum áður gekk undir heitinu Rúblan.
Staðurinn mun heita Bókabúðir Máls og menningar og verður með leyfi fyrir 300 manns. Opið verður frá klukkan 12 alla daga. „Við opnum um leið og Víðir leyfir,“ segir Garðar Kjartansson veitingamaður sem mun reka staðinn. Hann verður meirihlutaeigandi.
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti á fundi í síðustu viku leyfi til breytinga á innra skipulagi á Laugavegi 18. Félagið MMT ehf. sótti um leyfi til að koma fyrir nýjum snyrtingum á 1. og 2. hæð, nýrri afgreiðslu á 1. hæð þannig að við rekstur bókabúðar á báðum hæðum og veitingastaðar í flokki II á 2. hæð bætist veitingastaður í flokki II á 1. hæð hússins. Tvær kaffiteríur verða í húsinu, á 1. hæð og efsta palli.
„Fyrst tónlistarstaðurinn Græni hatturinn gengur svona glimrandi vel á Akureyri hlýtur að vera hægt að reka svona stað í miðbæ Reykjavíkur,“ segir Garðar. Hann þekkir vel til í veitingageiranum eftir að hafa rekið veitinga- og skemmtistaði um 16 ára skeið, m.a. Nasa, Apótekið, Hótel Borg og Þrastarlund, að því er fram kemur í samtali við Garðar í Morgunblaðinu í dag.