Óvissa er uppi um hvort Reykjavíkurskákmótið geti farið fram í Hörpu í sumar eins og áformað var. Vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar gæti þurft að fresta mótinu. Að þessu sinni verður Evrópukeppni einstaklinga í skák hluti af Reykjavíkurskákmótinu.
Samkvæmt áætlun átti mótið að fara fram dagana 22. maí til 2. júní í sumar. „Annaðhvort höldum við okkur við þessar dagsetningar eða frestum mótinu fram á haust. Ég er einmitt að skrifa Evrópuskáksambandinu bréf þar sem farið er yfir stöðuna og leitað eftir þeirra sjónarmiðum,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambandsins.
Í Morgunblaðinu í dag segir Gunnar að ekki verði hægt að bíða lengur en fram í lok febrúar eða byrjun mars með að taka ákvörðun um tímasetningu mótsins.