Móðir nemanda í Borgarholtsskóla segir að árásin sem var gerð þar í gær hafi beinst gegn honum. Hún segir að fyrir nokkrum mánuðum hafi hann komið í veg fyrir að forsprakki slagsmálanna, sem er með honum í skóla, hafi gengið í skrokk á stúlku.
Eftir það hafi honum verið hótað barsmíðum og í fyrradag frétti hann að verið væri að „planleggja stunguárás á hann“, eins og kemur fram í stöðuuppfærslu hennar á Facebook um málið.
„Honum hættir að lítast á blikuna af því að þá á að narra hann út í Spöng [sem er skammt frá skólanum í Grafarvogi]. Hann hringir í [eldri] bróður sinn sem kemur og ætlar að sjatla málin og reyna að gera eitthvað gott úr þessu en það gengur ekki betur en þetta,“ segir móðirin, Inda Björk Eyrbekk Alexandersdóttir, í samtali við mbl.is.
Hún segir báða syni sína hafa fengið djúpa skurði á höfði í árásinni og sá yngri hafi verið illa laminn, bæði með skralli og ítrekað með hafnaboltakylfu. Einnig hafi annar piltur handleggsbrotnað sem reyndi að koma þeim til aðstoðar. Aðspurð segir hún að þeim foreldrum hafi verið brugðið er þau fréttu af árásinni en að rannsóknarlögreglumaður sem hafði samband við þau hafi verið afar fagmannlegur.
Inda Björk vill árétta að árásin tengdist ekki fíkniefnum og að sonur hennar hafi aldrei verið í neyslu eða komið nálægt fíkniefnum. Best sé að trúa ekki öllu því sem hafi verið haldið fram bæði í fréttum og ummælakerfum á netinu. Hún kveðst aftur á móti ekkert vita um hvort árásarmennirnir hafi verið undir áhrifum eður ei. „Fólk missir sig í kommentakerfum. Maður hefur séð það svo oft. Fólk dæmir ekki, það segir bara og býr eitthvað til. Þetta er svo hættulegt eins og í þessu tilfelli, því hér erum við með tæplega 17 ára strák sem á ekki neina sögu í heimi fíkniefna,“ segir hún.
Inda hvetur fólk til að taka því með fyrirvara sem það les og álykta ekki strax út frá því. „Það er rosalega gott að tileinka sér það að gæta sín svolítið á þessu. Það eru skilaboð mín út í samfélagið,“ bætir hún við.
Skólastarf hófst á nýjan leik í Borgarholtsskóla í morgun eftir að nemendur voru sendir heim í gær. Aðspurð segist Inda ekki vita hvenær sonur hennar snýr aftur í skólann. Hún eigi einnig eftir að sjá hvernig skólayfirvöld taka á málinu.