Svarbæling gæti hafa dregið upp ranga mynd

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Smitaður einstaklingur á blóð- og krabbameinslækningadeild hafði verið skimaður fyrir kórónuveirunni nokkrum dögum áður en hann var lagður inn á deildina og þá reyndist sýni hans neikvætt. Már Kristjánsson, yfirlæknir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­al­a og formaður farsóttarnefndar, segir að stundum geti krabbameinssjúklingar verið svarbældir og því erfitt að greina hjá þeim ýmsar veirusýkingar.

Var sjúklingurinn skimaður áður en hann var lagður inn á deildina?

„Þessi sjúkdómsgreining hefur komið áður til álita hjá viðkomandi sjúklingi. Það liggja fyrir neikvæð próf en ekki alveg nýlega,“ segir Már í samtali við mbl.is.

Er það ekki almennt verklag að fólk sé skimað áður en það er lagt inn?

„Þegar það á við þá er það verklagið, sérstaklega þegar fólk leggst inn á blóð- og krabbameinsdeildina. Í þessu tilviki var búið að gera það áður en það voru liðnir nokkrir dagar síðan þannig að þetta er eðli málsins samkvæmt svolítið flóknara en þetta venjulega,“ segir Már.

Covid-19 hafði áður komið til skoðunar

Hann útskýrir að viðkomandi hafi komið inn á deildina vegna veikinda sem talin voru vegna meðferðar sem hann undirgekkst. Áður hafði komið til skoðunar hvort veikindin væru tilkomin vegna Covid-19 en neikvætt sýni benti til þess að svo væri ekki.

„Stundum er það þannig í sjúklingum sem eru í meðferð vegna krabbameina að þeir verða það sem er kallað svarbældir með tilliti til ónæmiskerfisins. Það á við um þennan einstakling. Þess vegna getur verið svolítið snúið að greina ýmsar veirusýkingar […] þannig að þetta var bara ósköp eðlilegt vinnulag við greiningu þessa einstaklings,“ segir Már.

Spurður um frekari útskýringu á svarbælingu segir Már:  

 „Þegar þú færð sýkingar eru þessi svokölluðu klínísku einkenni samspil sýkils og varnarviðbragða líkamans. Þegar varnirnar eru eitthvað tæpar verða einkennin oft ódæmigerð. Við köllum þetta svarbælingu, ónæmiskerfið er ekki að svara eins og það ætti að gera. Þess vegna verður þessi sjúkdómsmynd oft dálítið ódæmigerð. Menn hafa reynt að finna út í tilfelli þessa einstaklings hvað orsakar og meðal annars kastað netunum út fyrir Covid en hingað til hefur prófið verið neikvætt en svo reynist það jákvætt núna. Þetta eru þessi vandamál sem við glímum við einkum og sér í lagi hvað varðar fólk sem er í krabbameinsmeðferð eða annarri meðferð sem gerir fólk svarbælt.“

Ganga úr skugga um að smitin séu ekki fleiri

Már segir aðspurður „full gróft“ að segja að enginn grunur sé uppi um að smit séu á meðal starfsfólks eða sjúklinga deildarinnar. Upplýsingar frá Landspítala þess efnis voru sendar út í morgun en þar kom fram að sjúklingurinn hefði einungis legið á deildinni í mjög stuttan tíma áður en smitið kom upp í gærkvöldi.

„En við erum að kanna málið og tilgangur þeirrar könnunar er að ganga úr skugga um það að það séu ekki fleiri smit. Hins vegar er viðkomandi búinn að vera stutt inni á spítalanum svo vonir standa til þess að þetta sé ekki orðið útbreitt.“

Endurtaka prófið hjá hinum smitaða

Degi áður en tilkynnt var um smitið á blóð- og krabbameinslækningadeild hafði verið tilkynnt um smit á hjartadeild. Engin fleiri smit greindust þar og er talið líklegt að um gamalt smit hafi verið að ræða. Már sagði í samtali við mbl.is í gær að smitið á blóð- og krabbameinslækningadeild hefði „meira það yf­ir­bragð að vera raun­veru­legt smit.“

Er viðkomandi mjög veikur og mjög líklegt að þetta sé virkt smit?

„Nú höfum við bara eitt próf hjá viðkomandi sem er jákvætt og það þarf að endurtaka það til þess að ganga úr skugga um að það sé jákvætt og það er það sem verið er að gera núna. Ég á von á því að við getum staðfest þetta í dag og þá fengið niðurstöður úr sjúklingum og öðru starfsfólki.“

Allir sjúklingar deildarinnar voru skimaðir fyrir veirunni í gær. Starfsfólk var skimað nú í morgunsárið. Niðurstaðna úr sýnatökunum er að vænta um klukkan þrjú í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert