Þrír í haldi lögreglu eftir árásina

Lögreglan á vettvangi í gær.
Lögreglan á vettvangi í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír eru í haldi lögreglunnar eftir árásina í Borgarholtsskóla í gær. Enginn af þeim sem voru fluttir á slysadeild í gær slasaðist lífshættulega og búið er að útskrifa alla af sjúkrahúsi.

Þetta segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.

Í gær var talað um að að minnsta kosti sex hefðu verið fluttir á slysadeild en hann hefur ekki upplýsingar um nákvæman fjölda.

Aðspurður segist Margeir ekki vita um meiðslin sem fólkið varð fyrir. „Það er eitt af því sem við erum að reyna að ná utan um,“ segir hann og bætir við að verið sé að skoða alla þætti málsins.

Skýrslutökur munu halda áfram í dag og reynt verður að afla frekari upplýsinga um það sem gerðist.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert