Már Kristjánsson, yfirmaður smitsjúkdómadeildar Landspítalans og formaður sóttvarnanefndar, segir spítalann standa í sömu sporum vegna smitsins sem kom upp hjá sjúklingi á blóð- og krabbameinslækningadeild og þegar smit kom upp á hjartadeild spítalans.
„Við þurfum að bregðast við með sama hætti og í gær. Við vitum ekkert um þetta fyrr en við erum búin að grennslast meira fyrir, en þetta hefur meira það yfirbragð að vera raunverulegt smit,“ segir Már en sjúklingurinn sem hafði legið inni á hjartadeild og greindist jákvæður var með gamalt smit.
Þó svo að flest smit hafi greinst á landamærunum eru innanlandssmit enn til staðar og segir Már að því sé hægt að búast við hverju sem er. Aðspurður vill hann ekki tjá sig um hvort umræddur sjúklingur var í herbergi með fleira fólki. Hann vill heldur ekki greina frá kyni hans og aldri að svo stöddu.
Spurður út í alvöru málsins segir hann að því leytinu til verra að smit komi upp á blóð- og krabbameinsdeild en hjartadeild.
„Þarna er fólk sem stendur höllum fæti út af sínum undirliggjandi veikindum og meðferð. Ég er ekki að segja að það sé gott að fá þetta inni á hjartadeild en það er sýnu verra að hafa þetta á þessari deild,“ segir Már, sem vonast eftir að niðurstöður úr skimunum starfsmanna og sjúklinga verði komnar upp úr hádegi á morgun.