41 einstaklingur hefur greinst með breska afbrigði kórónuveirunnar hérlendis. 35 smitanna greindust við landamæraskimun en sex innanlands. Öll innanlandssmitin komu upp hjá fólki sem hafði skýr tengsl við einstaklinga sem höfðu nýlega komið að utan.
Þetta kemur fram í skriflegu svari almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra við fyrirspurn mbl.is.
Engin smit suður-afríska afbrigðisins hafa greinst hérlendis og ekki heldur smit brasilíska afbrigðisins.
Öll þrjú afbrigðin eru mun meira smitandi en fyrsta afbrigði veirunnar. Þá eru brasilíska afbrigðið og hið suður-afríska talin erfiðari viðfangs en breska afbrigðið, samkvæmt frétt BBC.
Fyrsta smit breska afbrigðisins greindist hérlendis 2. desember síðastliðinn en síðan ekki aftur fyrr en 18. desember. Eftir það greindist afbrigðið reglulega.