Of lítið samráð er haft við marga hagsmunaaðila innan lífeyriskerfisins þegar veigamiklar ákvarðanir eru teknar. Þetta er mat Ólafs Páls Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Íslenska lífeyrissjóðsins.
Bendir hann á að stefnumarkandi ákvarðanir um kerfið séu gjarnan teknar við samningaborðið milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Sá hópur hafi þó ekki aðkomu að nema 7 lífeyrissjóðum af þeim 21 sem starfandi er í landinu. Þeir sjóðir hafi með höndum innan við helming þeirra verðmæta sem kerfið byggir grundvöll sinn á.
Í samtali í Morgunblaðinu í dag bendir Ólafur Páll á mikilvægi þess að fleiri sjónarmið fái að komast að. „Það þarf að hleypa fleirum að borðinu, bæði sjóðum opinberra starfsmanna og öðrum hagsmunaaðilum. Það er eina leiðin til þess að ná víðtækri sátt um kerfið.“