Laxar ehf. hafa gert langtímasamning um leigu á fóðurpramma, sem á að þjóna eldisstöð fyrirtækisins við Gripalda í sunnanverðum Reyðarfirði. Pramminn er aðeins minni heldur en Muninn, sem sökk þar um síðustu helgi.
Pramminn fer væntanlega um borð í stórt flutningaskip í Noregi á mánudag og er reiknað með honum til Eskifjarðar í lok næstu viku, að sögn Jens Garðars Helgasonar framkvæmdastjóra.
Þangað til sinna fjórir þjónustubátar með fóðurbyssur fóðrun fisks í 16 kvíum við Gripalda, þrír þeirra eru í eigu Laxa, en sá fjórði er í eigu Fiskeldis Austfjarða. Á Gripalda eru nú um 3.900 tonn af fiski sem verður kominn í sláturstærð í haust.
Jens Garðar segir ljóst að allur tæknibúnaður um borð í Munin sé ónýtur og skrokkurinn verulega laskaður.