Þann 1. maí næstkomandi verða tekin varfærin skref til afléttingar sóttvarnaraðgerða á landamærum sem taka munu mið af ástandi faraldursins á brottfararstað komufarþega. Þetta var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Frá og með 1. maí verður byggt á reglulega uppfærðu áhættumati Sóttvarnarstofnunar Evrópu og ríki flokkuð í græn, appelsínugul, rauð og grá eftir stöðu faraldursins.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Í ljósi landfræðilegrar sérstöðu Íslands og annarra sóttvarnasjónarmiða verður harðari sóttvarnaraðgerðum hins vegar beitt fyrir hvern áhættuflokk en þeim sem lögð eru til í tilmælum Evrópusambandsins, að minnsta kosti fyrst um sinn. Farþegar frá hættuminni löndum verða undanþegnir sóttkví og síðari skimun geti þeir framvísað vottorði um neikvæða niðurstöðu PCR-prófs innan tiltekins tíma.
Komufarþegar sem geta framvísað gildu vottorði sem sýnir fram á að COVID-19 sýking sé afstaðin verða áfram undanþegnir sóttvarnaaðgerðum á landamærum og það sama mun gilda um komufarþega sem geta framvísað gildu bólusetningarvottorði.