Sóttvarnaaðgerðir lengja aðalmeðferð Bitcoin-máls

Aðalmeðferð í Bitcoin-málinu fer fram fyrir Landsrétti í næstu viku.
Aðalmeðferð í Bitcoin-málinu fer fram fyrir Landsrétti í næstu viku. mbl.is/Eggert

Í næstu viku fer fram aðalmeðferð fyrir Landsrétti í gagnaversmálinu sem stundum hefur verið nefnt Bitcoin-málið. Tekur aðalmeðferðin samtals þrjá daga sem er með því lengsta sem mál hafa tekið fyrir dómstólnum, en meðal ástæðna eru sóttvarnaaðgerðir og fjöldi sakborninga í málinu.

Samtals voru sjö ákærðir í málinu og voru þeir allir sakfelldir í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun árs 2019. Voru dómar í málinu á bilinu sex mánuðir skilorðsbundnir upp í fjögur og hálft ár. Hlaut höfuðpaurinn, Sindri Þór Stefánsson, þyngsta dóminn.

Fimm áfrýjuðu dóminum til Landsréttar og hefst aðalmeðferð málsins á ný á miðvikudaginn eftir viku. Heldur hún svo áfram næstu tvo daga.

Óalgengt er að aðalmeðferð fyrir Landsrétti taki meira en einn dag og mjög sjaldan fer tímalengdin yfir tvo daga. Björn L. Björnsson, skrifstofustjóri Landsréttar, segir í samtali við mbl.is að einhver dæmi séu um þriggja daga mál, en að þau séu mjög sjaldgæf.

Björn segir að tímalengdin núna helgist aðallega af þremur atriðum. Í fyrsta lagi verði talsvert magn upptöku úr héraðsdómi spilað á ný fyrir Landsrétti. Miðað við dagskrá Landsréttar er gert ráð fyrir um fjórum klukkustundum í það. Í öðru lagi nefnir Björn að um fjölmennt mál sé að ræða. Því þurfi að gera ráð fyrir málflutningstíma fyrir alla verjendur, en áætlaður tími á hvern er um ein klukkustund. Til viðbótar er áætlað að ákæruvaldið hafi um tvær klukkustundir í sinn málflutning.

Í þriðja lagi segir Björn að gæta þurfi sóttvarnaráðstafana. Þrátt fyrir að dómstólar séu undanþegnir ákvæðum sóttvarnalaga þá hafi slíkt ekki verið nýtt nema í undantekningatilfellum og þegar um sé að ræða um 20 manns þegar sakborningar, verjendur og dómarar séu taldir með vilji dómstóllinn gæta ýtrustu varúðar. Þannig verður reglulega gert hlé þar sem viðstaddir fá að standa upp og salurinn verður loftaður.

Upphaflega segir Björn að áformað hafi verið að flytja málið á tveimur dögum, en með hliðsjón af sóttvörnum hafi verið ákveðið að lengja það í þrjá daga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka