Rannsóknasjóður hefur ráðstafað fjórum milljörðum króna til 82 nýrra rannsóknaverkefna sem er mesti fjöldi frá upphafi og jafnframt hefur heildarupphæð sem úthlutað er aldrei verið hærri. Mun þetta því vera stærsta úthlutun sjóðsins frá upphafi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannís.
Rannsóknasjóður hefur verið starfræktur frá árinu 2004. Hlutverk sjóðsins er að efla grunnrannsóknir í þágu vísinda og samfélags og mennta ungt fólk til vísindarannsókna með því að styðja framúrskarandi verkefni og frábæra vísindamenn.
„Umsóknum hefur fjölgað undanfarin ár og hefur árangurshlutfall úthlutunar farið lækkandi og var þörfin fyrir auknar fjárveitingar því mikil. Alls bárust sjóðnum 402 umsóknir, sem er fjölgun frá fyrri árum, en þrátt fyrir það er árangurshlutfall í ár rúm 20% og hefur ekki verið hærra síðan 2017. Þessi mikla eftirspurn er til marks um öflugt vísindastarf á Íslandi.“ Segir í tilkynningunni frá Rannís.
Doktorsnemar, nýdoktorar og rannsóknarverkefni hlutu styrki frá sjóðnum auk þess sem öndvegisstyrkir að upphæð 150 milljónir króna á þriggja ára tímabili voru veittir til „stórra verkefni sem skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega tengingu.“
„Níu öndvegisstyrkir eru veittir að þessu sinni og hefur aldrei áður verið úthlutað jafn mörgum slíkum styrkjum, eða jafn hárri upphæð sem nemur um 1,3 milljarði á næstu þremur árum. Gæði umsókna um öndvegisverkefni voru mjög mikil og því eru vísindalegar væntingar til þessara verkefna miklar.“ Segir í tilkynningunni.
Nýir öndvegisstyrkir árið 2021 eru til eftirfarandi verkefna:
Lista yfir úthlutunina í heild sinni og nánari upplýsingar má finna á vef Rannís.