Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir leiðinlegt að Ferðaklúbburinn 4x4 hafi ákveðið að segja sig úr félaginu.
„Okkur finnst náttúrulega mjög leiðinlegt að missa fólk frá okkur sem er í raun sammála okkur, sem ber hag náttúrunna fyrir brjósti, og við teljum að við eigum mjög mikla samleið í langflestum málum með útivistarfólki sem að ann náttúrunni og vill njóta náttúrunnar,“ og bætti við að ein ástæðnanna fyrir því að Landvernd starfi er svo fólk geti notið náttúrunnar.
En líkt og mbl.is greindi frá í gær hefur stjórn Ferðaklúbbsins 4x4 ákveðið að hætta öllum stuðningi við Landvernd og segja sig úr félaginu. Ástæðan er stefna Landverndar sem að sögn Ferðaklúbbsins 4x4 gengur þvert gegn hagsmunum klúbbsins.
Auður, hafnar því algjörlega að stefna Landverndar sé harðlínustefna. „Við erum bara að praktísera það sem kemur fram í náttúruverndarlögum og biðjum bara um að það sé farið að lögum í landinu gagnvart náttúruvernd,“ sagði Auður í samtali við mbl.is.
Vísar Ferðaklúbburinn í yfirlýsingu sinni einnig til yfirlýsingar Landverndar vegna Vonarskarðsins og að þar sé stefna Landverndar að loka ökuleið um örfoka sanda. Segir Ferðaklúbburinn þá stefnu eiga ekkert skylt með náttúruvernd.
Bendir Auður á að víðerni séu nefnd í náttúruverndarlögunum og Landvernd vilji að þau séu vernduð eins og kemur fram í lögunum.
„Við erum mjög sammála Ferðaklúbbnum varðandi það að það er mjög mikilvægt að náttúruvernd og aðgengi almennings að náttúrunni fari saman og að lokanir og hindranir að aðkomu almennings að náttúrunni séu eingöngu þegar náttúruna þarf að vernda virkilega. Þannig að við eigum mjög mikla samleið þegar kemur að því,“ sagði Auður.