Allir þeir sem voru í bílnum sem fór út af Djúpvegi í Skötufirði og hafnaði í sjónum í morgun eru komnir um borð í þyrlur Landhelgisgæslunnar. Verða þeir fluttir á sjúkrahús í Reykjavík.
Lögreglan hefur þegar tilkynnt aðstandendum slysið en ekki er unnt að greina frá líðan þeirra að svo stöddu. Um fjölskyldu er að ræða. Rannsókn á tildrögum slyssins er hafin á vettvangi.
Þrennt var í bílnum sem hafnaði í sjónum í Skötufirði á ellefta tímanum í morgun. Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum sagði í samtali við mbl.is í morgun að bíllinn hefði farið út af veginum og endað úti í sjó þar sem hann hafnaði á hliðinni. Aðstæður á slysstað hefðu verið mjög erfiðar.
Rögnvaldur segir að vegfarendur sem komu að slysinu hafi unnið þrekvirki við að hjálpa til við að bjarga þeim úr sjónum og hlúa að þeim áður en viðbragðsaðilar komu á staðinn.
Fjölmennt lið lögreglu, sjúkraflutninga og lækna, slökkviliðs og björgunarsveita var sent á vettvang auk þess sem tvær þyrlur Landhelgisgæsunnar voru kallaðar út og sendar á vettvang. Þá var samhæfingarstöð í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð virkjuð.