Pólskt par og barn þeirra er á sjúkrahúsi í Reykjavík eftir að hafa verið flutt þangað með þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag.
Um tuttugu viðbragðsaðilar eru komnir í sóttkví eftir að hafa meðhöndlað fólkið á vettvangi við Djúpveg í vestanverðum Skötufirði í dag, þar sem bíll þeirra hafnaði í sjónum eftir að hafa farið út af veginum.
Að sögn Jóhanns K. Jóhannssonar, upplýsingafulltrúa almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, var metið æskilegt að læknar, sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn og aðrir sem höfðu komið beint að meðhöndlun fólksins færu í sóttkví. Þau komu til landsins í nótt og voru á leið í sóttkví fyrir seinni sýnatöku á heimili sínu á Flateyri.
Enn verður ekki greint frá líðan fólksins en slysið var alvarlegt. Tilkynning um það barst fyrst á ellefta tímanum í morgun, þegar ljóst var að bifreið þeirra hafði farið út af veginum og í sjóinn.
Fyrstir til að veita fólkinu aðstoð voru vegfarendur en síðan komu viðbragðsaðilar á vettvang. Til öryggis fer hluti þeirra nú í úrvinnslusóttkví uns niðurstöður úr sýnatöku liggja fyrir. Að sögn viðstaddra var unnið mikið þrekvirki í erfiðum og köldum aðstæðum við að koma fólkinu úr bílnum.