43% andvíg frumvarpi um hálendisþjóðgarð

Um 43% eru andvíg frumvarpi um hálendisþjóðgarð sem umhverfisráðherra mælti fyrir á Alþingi í byrjun desember síðastliðins. Ríflega þrír af hverjum tíu eru fylgjandi og rúmlega 26% segjast hvorki fylgjandi né andvíg. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Konur eru frekar fylgjandi frumvarpinu en karlar, en einnig er eldra fólk frekar andvígt frumvarpinu en yngra fólk. Þá eru íbúar höfuðborgarsvæðisins mun líklegri til að vera fylgjandi frumvarpinu en íbúar landsbyggðarinnar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill munur er á afstöðu fólk eftir því hvaða flokk það kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag. Þeir sem kysu Miðflokkinn eru líklegastir til að vera andvígir frumvarpinu, þeir sem kysu Framsóknarflokkinn næstlíklegastir og þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn. Þeir sem kysu Vinstri-græn eða Samfylkinguna eru aftur á móti líklegastir til að vera hlynntir frumvarpinu.

Karlar líklegri til að telja sig hafa mikla þekkingu

Þeir sem telja sig hafa mikla þekkingu á frumvarpinu eru bæði líklegri til að vera fylgjandi og andvígir því en þeir sem telja sig hafa litla þekkingu á því. Tæplega 29% telja sig hafa mikla þekkingu á frumvarpinu en nær 43% litla. Um 29% segjast hafa hvorki mikla né litla þekkingu.

Karlar telja sig frekar hafa mikla þekkingu á fumvarpinu en konur. Þá er fólk yfir sextugu líklegast til að telja sig hafa mikla þekkingu á því.

Hálendisþjóðgarður myndi ná yfir um þriðjung af landinu. Myndin er …
Hálendisþjóðgarður myndi ná yfir um þriðjung af landinu. Myndin er af Laugafelli upp af Eyjafirði, þar sem Ferðafélag Akureyrar er með skála. mbl.is/Árni Sæberg

Miðflokksmenn eru líklegastir til að telja sig hafa þekkingu á frumvarpi umhverfisráðherra og þeir sem kysu Viðreisn líklegastir til að segjast hafa litla þekkingu á því.

Um 45% eru almennt fylgjandi því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði burtséð frá frumvarpi umhverfisráðherra, sem er hærra hlutfall en er fylgjandi frumvarpi hans. Þeir sem eru almennt fylgjandi því að hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði eru mun líklegri til að vera fylgjandi frumvarpinu en aðrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert