Að „gróðursetja“ fólk

„Þegar fólk missir ástvini er það í hræðilegri sorg og …
„Þegar fólk missir ástvini er það í hræðilegri sorg og áfalli og oft þarf að skipuleggja útför hratt. Þá skiptir máli að geta gengið að þessum upplýsingum,“ segir Sigríður Bylgja en hjá Tré lífsins geta aðstandendur lesið um óskir látins ástvinar. mbl.is/Ásdís

Tré lífsins er verkefni sem hyggst bjóða upp á nýja valkosti við lífslok; bæði hvað varðar greftrun jarðneskra leifa og eins að bjóða öruggan vettvang þar sem fólk getur skráð óskir sínar og lífssögu.

Galið að jarðsetja kistur

Sigríður Bylgja er konan á bak við hugmyndina að Tré lífsins. Hún er með meistarapróf í mannvistfræði með áherslu á menningu, völd og sjálfbærni en þau fræði nam hún í Háskólanum í Lundi í Svíþjóð. Hún kláraði nám sitt árið 2013.

„Síðan þá hef ég verið að finna leiðina mína hingað. Þetta byrjaði allt með einni hugmynd. Ég fór að hugsa hvernig hægt væri að gera heiminn aðeins betri og gera betur í umhverfismálum. Ég fór að velta fyrir mér jarðsetningu og fannst alveg galið að við værum að jarðsetja eða brenna svona stórar kistur, búnar til úr verðmætum auðlindum. Við setjum hylkið okkar, líkamann, þar þegar við föllum frá, til þess eins að jarðsetja kistuna og um leið tökum við mikið pláss í kirkjugörðum. Þá datt mér í hug hvort ekki væri hægt að „gróðursetja“ fólk en þegar ég var lítil féll langamma mín frá og ég mismælti mig og sagði að það ætti að gróðursetja hana, ekki jarðsetja,“ segir hún og brosir.

Sigríður Bylgja segir í gamni að þarna hafi strax verið kominn fyrirboði að lífsstarfinu, en hún hefur mikla ástríðu fyrir verkefninu.

„Tré lífsins mun bjóða upp á þann valkost að gróðursetja ösku ástvina að lokinni bálför, ásamt tré sem vex þá til minningar um hinn látna.“

Bálstofa í Garðabæ

„Tré lífsins er ekki bara ég að elta drauminn minn; þetta er orðið miklu stærra en ég. Ég hef heyrt frá svo mörgu fólki sem segir mér sögur af missi, sorg, af þörfinni fyrir annað og meira en það sem kerfið býður í dag upp á,“ segir hún.

„Við viljum byggja bálstofu í Garðabæ og höfum átt í góðu samstarfi við bæjarstjórann sem er mjög framsýnn. Þetta verður ekki eingöngu bálstofa heldur einnig athafnarými sem verður staður óháður öllum trúarbrögðum en opinn öllum. Það er rými fyrir alla hjá Tré lífsins. Það verður hægt að halda kveðjuathöfn hjá okkur, síðan er bálför og svo er val; viltu láta jarðsetja öskuna ofan á kistu ættingja, í duftreit, dreifa yfir hafi eða óbyggðum, eða viltu gróðursetja öskuna ásamt tré í Minningagarði Trés lífsins? Fyrsti minningagarðurinn verður við hlið bálstofunnar í Garðabæ og búið er að gera ráð fyrir því. Dómsmálaráðuneytið segist jákvætt fyrir þeirri hugmynd að fara í lagabreytingar til að gera kleift að opna minningargarða um allt land, þótt slíkt sé svo á hendi sveitarfélaga að ákveða.“

Sigríður Bylgja horfir langt fram í tímann og sér fyrir sér minningagarða víða um land þar sem fólk getur farið í lautarferðir og heimsótt tré látins ættingja.

„Draumurinn okkar með minningagörðum er að þeir fá að vaxa og dafna og verða að persónulegum skógum sem um leið verða útivistarsvæði.“

Rafræn minningasíða og lífsbók

„Við verðum með rafræna minningasíðu sem inniheldur æviágrip hins látna auk minningarorða. Þetta verður vettvangur til að veita syrgjendum útrás fyrir sorgartjáningu. Fólk getur fengið minningasíðu óháð því hvort það velji að hvíla í kirkjugarði, duftreit, láta dreifa öskunni eða vaxa í Minningagarði. Tré lífsins snýst um að valið sé þitt. Hvað samræmdist þinni trú eða lífsskoðunum? Tré lífsins er einn valmöguleiki,“ segir Sigríður Bylgja og nefnir að ný bálstofa verði umhverfisvæn. 

Hjá Tré lífsins verður hægt að kaupa sér aðgang að Lífsbókinni sem er rafrænn gagnagrunnur. Fólk stofnar sína Lífsbók og skráir niður tvo nánustu aðstandendur sem fá þá aðgang að efninu eftir andlát viðkomandi.

„Aðstandendur koma til okkar stuttu eftir að ástvinurinn fellur frá því í Lífsbókina verður hann búinn að skrá sínar hinstu óskir. Sumir vilja ráða hvernig útförin eða kveðjustundin verður; velja prest, kirkju eða bálstofu Trés lífsins,“ segir hún og bætir við að þarna getur fólk skrifað niður ítarlegar óskir um hvað verður um þeirra jarðnesku leifar. Einnig verður hægt að skrá erfðamál, skilaboð til aðstandenda og leyniorð ýmissa samfélagsmiðlareikninga svo eitthvað sé nefnt.

Hjá Tré lífsins er hægt að velja annað en hefðbundna …
Hjá Tré lífsins er hægt að velja annað en hefðbundna jarðsetningu í vígðri mold. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þegar fólk missir ástvini er það í hræðilegri sorg og áfalli og oft þarf að skipuleggja útför hratt. Þá skiptir máli að geta gengið að þessum upplýsingum,“ segir hún en þannig geta aðstandendur virt óskir hins látna. 

„Fólk getur skráð lífsöguna sína með eigin orðum í Lífsbókina, sett inn textaskrár, hljóðupptökur, myndir og myndbönd. Þegar ástvinur er fallinn frá verður Lífsbókin gull fyrir aðstandendur.“

Ítarlegt viðtal við Sigríði Bylgju er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.


Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert