Jón Magnús hættir sem yfirlæknir bráðalækninga

Jón Magnús Kristjánsson.
Jón Magnús Kristjánsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðadeildar Landspítalans, hefur sagt upp störfum hjá spítalanum og mun taka við sem framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsuvernd. Aðalástæða þess að hann lætur af störfum nú segir Jón að sé nýja starfið sem bjóði upp á alls konar ný og spennandi verkefni. Rúv greindi fyrst frá.

Jón segir þó einnig að mikill innlagnarvandi sé á Landspítalanum sem leiði af sér mikið álag á bráðamóttöku spítalans. Illa gangi að ráða bót á því vandamáli en það segir Jón þó ekki vera aðalástæðu uppsagnar hans.

„Aðalástæðan er sú að mér bauðst spennandi tækifæri frá Heilsuvernd og mun ég taka við þar sem framkvæmdastjóri lækninga,“ segir Jón Magnús í samtali við mbl.is.

Jón hefur starfað á Landspítalanum í 25 ár, þar af fimm ár sem yfirlæknir, og kveðst hann spenntur fyrir því að takast á við nýjar áskoranir í nýju starfi. Hann tilkynnti spítalanum um uppsögn sína í nóvember á síðasta ári og vinnur nú þriggja mánaða uppsagnarfrest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert