Vestlæg eða breytileg átt verður á landinu í dag, víðast hvar fremur hæg en þó allt að 13 m/s austast á landinu. Nokkur úrkoma verður norðaustanlands, snjókoma inn til landsins en slydda við sjóinn. Í öðrum landshlutum verða él eða slydduél.
„Í nótt snýst síðan í norðanátt sem mun ríkja fram að næstu helgi með éljum um norðanvert landið en bjartviðri syðra og kólnandi veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Veðurhorfur í dag og næstu daga
Vestlæg eða breytileg átt, 5-13 m/s hvassast á Austfjörðum og með suðurströndinni. Snjókoma eða slydda með köflum norðaustan til annars víða él.
Norðan 5-13 á morgun en 10-15 austast. Él um norðanvert landið en skýjað með köflum sunnan til. Hiti nálægt frostmarki.
Á mánudag og þriðjudag:
Norðan 8-15 m/s með snjókomu eða éljum á norðan- og austanverðu landinu en bjart með köflum sunnan heiða. Víða vægt frost, einkum inn til landsins.
Á miðvikudag og fimmtudag:
Norðanátt, víða allhvöss með éljum, en léttskýjað syðra. Frost um allt land.
Á föstudag og laugardag:
Útlit fyrir stífa norðanátt með snjókomu en skýjað með köflum og þurrt að kalla sunnanlands. Fremur kalt í veðri.