Viðbragðsaðilar sem tóku þátt í lífsbjargandi aðgerðum þegar umferðarslysið varð í gær, í Skötufirði, eru nú lausir úr úrvinnslusóttkví.
Tæplega 20 manns voru settir í úrvinnslusóttkví þar sem fjölskyldan sem lenti í slysinu var að koma til landsins á leið í sóttkví á Flateyri. Þau höfðu farið í fyrri skimun á Keflavíkurflugvelli og reynst ósmituð.
Staðan varðandi hina slösuðu, barn og föður þess, sem eru undir læknishöndum á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, er óbreytt að því er segir á facebooksíðu lögreglunnar á Vestfjörðum.
Sóknarpresturinn í Önundarfirði hefur opnað Flateyrarkirkju og býður þeim sem það vilja að koma þangað og eiga stund milli kl. 14:00 og 16:00. Rannsókn á tildrögum slyssins stendur yfir.