Ekki verið að taka ákvörðun um endanlega sölu

Frá fyrsta þingfundi eftir jólahlé.
Frá fyrsta þingfundi eftir jólahlé. mbl.is/Kristinn Magnússon

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir einu forsendur ríkisstjórnarinnar fyrir sölu ríkisins á fjórðungshluta í Íslandsbanka vera þær að salan komi fram í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar. Engin skilyrði hafi komið fram um ásættanlegan kostnað, ávinning og fleira. 

Á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag spurði Smári Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherrar hvaða forsendur liggi að baki fyrirætlunum um sölu. Hvort einhver skilyrði séu sett fyrir henni og hvenær standi til að gera skilyrði og forsendur opinberar. 

„Núna er margt í gangi og mál málanna þessa stundina kannski fyrirhuguð sala ríkisstjórnarinnar á hlut í Íslandsbanka af ótilgreindri stærð. Það hefur skiljanlega valdið töluverðum áhyggjum í samfélaginu enda virðist engin eftirspurn eftir þeirri aðgerð nema mögulega hjá þeim sem munu græða mest á henni. Margt er óljóst við þessar fyrirætlanir og margir spyrja sig hvers vegna liggi svona mikið á. Hinn naumi tímarammi sem þinginu er ætlaður til að fara yfir þetta er síðan enn eitt dæmið um heimatilbúna tímapressu. Eðlilegt verklag við svona stóra óafturkræfa aðgerð er að byrja á því að setja sér forsendur, þ.e. hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að það teljist líklegt að aðgerðin heppnist og skilgreina hvað felst í því nákvæmlega að árangur hafi náðst og fara ekki af stað fyrr en að þeim skilyrðum uppfylltum,“ sagði Smári í upphafi fyrirspurnarinnar. 

„Einu forsendurnar sem ríkisstjórnin virðist hafa lagt fram er að þetta sé í stjórnarsáttmálanum og því liggi á að gera þetta fyrir kosningar. Engin skilyrði hafa komið fram um ásættanlegan kostnað og ávinning, efnahagsforsendur, stöðugleikaskilyrði, skilyrði um kaupendur, skilyrði um verð o.s.frv. Ef slík skilyrði hefðu komið fram gæti þingið a.m.k. lagt mat á hvort þau væru góð og hvort þau hefðu verið uppfyllt. Séu engin önnur skilyrði til staðar er það til marks um að allar áhyggjur fólks af enn einu einkavæðingarferlinu séu réttmætar,“ sagði Smári. 

Skýr og gagnsæ lög gildi um söluferlið

Í andsvari sínu minnti Katrín á að sala á Íslandsbanka hafi einnig farið fram snemma árs 2020 á vettvangi ráðherranefndar um efnahagsmál. 

„Það er áhugavert að nákvæmlega sami málflutningur kom þá fram, þ.e. að þetta væri bara akkúrat röng tímasetning. Þó var enginn á móti því að selja hlut í bankanum — eða kannski ekki enginn, flestir voru meðmæltir því að það væri í lagi að selja hlut í bankanum en þetta væri bara ekki rétta tímasetningin. Og mér finnst ég heyra þetta enduróma aftur; fæstir hafa á móti því að selja hlut í bankanum, bara ekki á þessum tíma,“ sagði Katrín. 

„Ég get ekki fallist á það sem þingmaður segir, að þetta komi eingöngu í kjölfar þessarar einu línu í stjórnarsáttmála,“ sagði Katrín. Hún geti ekki fallist á það að um sé að ræða tillögu sem „dottin sé af himnum ofan“ og að engin umræða hafi farið fram. 

Þá sagði Katrín að um sölu bankans gildi skýr og gagnsæ lög sem samþykkt voru af ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, lög um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. 

„Frumvarp til þeirra laga var lagt fram hér af Oddnýju Harðardóttur sem þá var fjármála- og efnahagsráðherra. Þar með var stofnuð Bankasýsla ríkisins sem fer með þennan eignarhlut ríkisins. Það þarf enginn að velkjast í vafa um hvernig þetta fer því að hún hefur lagt fram mjög skýra tillögu um hvernig hún sér fyrir sér að söluferlið fari,“ sagði Katrín. 

„Eins og ég kom að áðan er núna eingöngu verið að taka ákvörðun um að hefja söluferlið, ekki ákvörðun um endanlega sölu. Það ferli snýst um að kanna virði bankans á markaði og hvort tíminn núna sé heppilegur til að selja þennan hlut sem hefur miðast við fjórðungshlut,“ bætti Katrín við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert