Heilsuvernd með mörg járn í eldinum

Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar, hlakkar til að fá Jón Magnús …
Teitur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Heilsuverndar, hlakkar til að fá Jón Magnús til starfa. Kristinn Ingvarsson

Teitur Guðmundsson framkvæmdastjóri Heilsuverndar segist spenntur að fá Jón Magnús Kristjánsson til liðs við Heilsuvernd en þar tekur hann sæti í framkvæmdastjórn sem framkvæmdastjóri lækninga. Jón hefur um langt skeið gengt starfi yfirlæknis bráðadeildar á Landspítala en hefur sagt starfi sínu lausu, að hluta til vegna aðstæðna á bráðadeild.

Sækja fram á sviði öldrunarlækninga 

„Heilsuvernd og heilsugæslan í Urðarhvarfi eru vaxandi einingar. Ráðning Jóns sem framkvæmdastjóri lækninga er ákveðin strúktúrsbreyting hjá okkur. Við erum að bæta við mannskap í framlínunni hjá okkur,“ segir hann og bætir við að Heilsuvernd sé með fleiri járn í eldinum hvað varðar mannaráðningar:

„Við höfum verið að vinna að verkefnum sem tengjast öldrun. Það liggur fyrir að það verði útboð á þeirri þjónustu og við erum með fleiri járn í eldinum hvað snertir mannaráðningar og annað. Síðan erum við með ýmis verkefni sem tengjast útvíkkun á starfsemi Heilsuverndar.“

Aukin aðstoð við íþróttafólk

Sú útvíkkun tengist ýmsu, þar á meðal uppbyggingu í þjónustu við íþrótta- og afreksfólk, forarnarverkefni ráðgjöf og heilsufarsmat auk annarra verkefna sem unnið er að í þverfaglegum teymum. „Við höfum heilmikinn áhuga á að feta þá braut,“ segir hann.

Þar að auki séu mörg verkefni á döfinni sem tengjast slysum og slysum á hálsi, í samstarfi við sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í þeim efnum. 

Að auki stefni Heilsuvernd að því að gera starfsemina stafrænni svo hægt sé að stuðla að betra samstarfi innanlands sem utan. „Við erum að fara í sterkari fjarheilbrigðisþjónustu en við höfum verið að gera en við höfum þörf fyrir liðsstyrk,“ segir hann í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert