Óttast „ódæðisverk gegn alkóhólistum“

Frá landsfundi Samfylkingarnnar síðasta haust.
Frá landsfundi Samfylkingarnnar síðasta haust. Ljósmynd/Aðsend

Birgir Dýrfjörð hefur sagt sig úr uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík vegna alþingiskosninga í haust. Hann segir reynslu sína af alkóhólisma og vanmætti hafa litað ákvörðunina.

Í yfirlýsingu sem Birgir sendi frá sér segist hann óttast að Samfylkingin fremji „ódæðisverk gegn óvirkum alkóhólistum“ með því að dæma þá vanhæfa og brottrekna með þeim rökum að viðkomandi sé ekki traustins verður vegna fyrri hegðunar í ölæði.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins frá því í síðustu viku er þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson ekki á meðal efstu fimm í könnun flokksins vegna fyrirhugaðrar uppstillingar og ljóst á tilkynningunni að Birgi þykir illa vegið að Ágústi Ólafi.

Þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson hlaut ekki eitt toppsætanna í framboðskönnuninni.
Þingmaðurinn Ágúst Ólafur Ágústsson hlaut ekki eitt toppsætanna í framboðskönnuninni.

Hann fór í leyfi frá þingstörfum og sótti sér aðstoð vegna áfengisvanda eftir að hann áreitti konu kynferðislega sumarið 2018.

Birgir kveðst sjálfur hafa viðurkennt vanmátt sinn gagnvart áfengi fyrir 40 árum. Hann sé svo lánsamur að hafa umgengist gott fólk sem aldrei hafi núið honum drykkjunni um nasir.

Hann kveðst ekkert dagsrkárvald hafa í uppstillingarnefndinni en það hafi formaðurinn einn.

Einnig er því til að svara, að þrátt fyrir að í uppstillingarnefnd sé heiðarlegt vel meinandi og gott fólk, þá finn ég mjög fyrir nöprum næðingi heiftar, sem ég ræð ekki við að stöðva. Ekki frekar en troða strigapoka upp í norðangáttina,“ kemur fram í yfirlýsingu Birgis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert