Í dag settu forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid lestrarkeppni á milli grunnskóla sem gengur út á að lesa setningar inn á vefinn samrómur.is. Upptökurnar verða svo notaðar til þess að kenna tölvum og tækjum að skilja íslenska tungu.
Þau Guðni og Eliza eru verndarar verkefnisins sem var sett í Fellaskóla í dag og forsetinn segir miklvægt að geta talað við snjalltæki af ýmsu tagi á íslensku og tók dæmi úr hversdagslífinu. „Við verðum að geta sagt við brauðristina: Ristaðu brauðið, ekki brenna það eins og í gær.“
Þetta er í annað skipti sem keppnin er haldin en markmiðið er að safna 500 þúsund lesnum setningum fyrir Samróm. 200 þúsund frá fullorðnum, 200 þúsund frá 18 ára og yngri og 100 þúsund sýnum frá þeim sem hafa íslensku sem annað mál. Viðtökur við síðustu lestrarkeppni fóru fram úr björtustu vonum. Alls tóku 1430 manns þátt fyrir hönd 130 skóla og lásu í kringum 144 þúsund setningar.
Þó keppnin sé á milli grunnskóla eru allir hvattir til að lesa inn á samróm.is. Hægt er að fylgjast með keppninni hér en fjölmargir skólar eru þegar byrjaðir að skrá inn lestur.