Mögulega getur heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins náð um 20% fleiri skömmtum úr bóluefnaglösum framvegis en áður var gert ráð fyrir. Það er vegna þess að sérhæfður búnaður sem notaður er til þess að ná hverjum dropa úr bóluefnaglösunum er kominn til landsins.
Þetta staðfestir Sigríður Dóra Magnúsdóttir umdæmislæknir sóttvarna og framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í samtali við mbl.is. RÚV greindi fyrst frá því að skammtarnir yrðu fleiri en áður var áætlað.
„Við stefnum á að ná sjötta skammtinum úr glasinu,“ segir Sigríður Dóra.
Nú fær heilsugæslan skammta í um 200 bóluefnaglösum til þess að bólusetja með og standa vonir því til þess að skammtarnir verði um 200 fleiri en áður var gert ráð fyrir, þ.e. að sex skammtar náist úr hverju glasi í stað fimm.
Umræddur búnaður, sprautur og nálar, verður prufukeyrður á miðvikudaginn og segir Sigríður Dóra að ef hann virkar vel muni hann vera notaður áfram. Þannig verður mögulegt að fjölga skömmtunum sem upp úr glösunum koma um 20%.
„Þetta snýst um það að nýta hvern einasta dropa þannig að það sé ekkert bóluefni ónýtt. Það eru áfram 0,3 millilítrar í hverjum skammti,“ segir Sigríður Dóra.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ræðst í bólusetningu á miðvikudag, fyrst verða íbúar hjúkrunarheimila, sambýla og dvalarheimila sem enn eiga eftir að fá sína fyrstu bólusetningu bólusettir. Svo verða elstu íbúar landsins bólusettir.