Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar vegna styttingar vinnuvikunnar á árinu 2021 er samtals 519,3 milljónir króna vegna A-hluta.
Þetta kemur fram í svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar sem lagt var fram á fundi borgarráðs fimmtudaginn 14. janúar við fyrirspurn sem borgarfulltrúi Miðflokksins lagði fram á fundi borgarráðs í nóvember á síðasta ári.
Stærsti hluti kostnaðarins verður til á velferðarsviði borgarinnar en áætlað er að hann verði um 473 milljónir króna. Kostnaðurinn á íþrótta- og tómstundasviði verður tæpar 45 milljónir króna og tæplega tvær milljónir á umhverfis- og skipulagssviði.
Í svarinu segir að stytting vinnuskyldu vaktavinnufólks úr 40 í 36 virkar stundir, muni að óbreyttu hafa veruleg áhrif á starfsemi starfsstaða og svokallað mönnunargat muni myndast, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.