Bólusetning heldur áfram í vikunni. Tæplega 5000 einstaklingar á öldrunar- og hjúkrunarheimilum og framlínustarfsmenn í heilbrigðisþjónustu fá sína seinni bólusetningu. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Í morgun bárust 3000 skammtar af bóluefni sem mun nýtast í áframhaldandi bólusetningu elsta aldurshópsins.
Aukaverkanir rannsakaðar
Alma fór einnig yfir skoðun sem fram hefur farið á tilkynntum alvarlegum aukaverkunum bólusetninga meðal elsta aldurshópsins á fundi dagsins.
Sagði Alma að í fjórum tilfellum hefði skoðun leitt í ljós að ekki eða mjög ólíklegt væri að um orsakatengsl væri að ræða þegar kemur að hugsanlegum aukaverkunum. Í einu tilfelli hafi hins vegar ekki verið hægt að útiloka orsakatengsl, en að líklegt sé þó að þar hafi undirliggjandi sjúkdómur verið áhrifaþáttur.
Fjögur andlát og ein alvarleg veikindi sem leiddu til andláts voru tilkynntar til lyfjastofnunar. Þríþætt athugun fór fram.
Í fyrsta lagi á vegum embættis landlæknis, þar sem sjúkraskrár voru skoðaðar og orsakatengsl athuguð. í fjórum tilvikum var voru orsakatengsl talin ólíkleg og í einu var ekki hægt að segja til um orsakatengsl með vissu.
Í öðru lagi var farið yfir tölfræði andláta hérlendis. Ekki var um aukningu að ræða í andlátum íbúa öldrunar- hjúkrunarheimila.
Í þriðja lagi hafa lyfjastofnun og sóttvarnalæknir sent fyrirspurnir til lyfjastofnunar Evrópu og norðurlandanna hvort þau hafi fengið svipaðar tilkynningar. Rekja má tilvik sem tilkynnt hafa verið til þeirra að mestu til undirliggjandi sjúkdóma.