Andlát: Ásdís Jenna Ástráðsdóttir

Ásdís Jenna Ástráðsdóttir.
Ásdís Jenna Ástráðsdóttir.

Ásdís Jenna Ástráðsdóttir táknmálsfræðingur er látin, hún varð bráðkvödd á heimili sínu í Kópavogi sl. laugardag, 16. janúar, 51 árs að aldri.

Ásdís var fædd 10. janúar 1970, dóttir hjónanna Ástráðs B. Hreiðarssonar læknis (f. 1942) og Ástu B. Þorsteinsdóttur hjúkrunarfræðings (1945-1998). Ásdís Jenna var heyrnarskert og með truflaða vöðvaspennu sem leiddi til þess að hún gat hvorki stjórnað höndum né fótum. Hún þurfti því alla tíð að nota hjólastól. Tækni nútímans gerði henni lífið léttara á marga lund, svo sem að flytja mál sitt á opinberum vettvangi.

Ásdís Jenna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1992 og var eftir það í um eitt ár við nám í lýðháskóla í Danmörku, en þar í landi bjó hún með foreldrum sínum fyrstu tíu árin. Hún nam seinna táknmálsfræði við Háskóla Íslands og lauk BA-námi í faginu. Þá las hún á sínum tíma fötlunarfræði við HÍ. Síðustu ár var hún svo í námi við lagadeild Háskólans á Bifröst.

Um ævina lét Ásdís Jenna oft og víða til sín heyra, meðal annars um réttindamál fatlaðs fólks hvar hún barðist mjög fyrir úrbótum og skilningi meðal almennings. „Mér finnst fötlunarfræðin hafa gert mig sterkari í því að berjast fyrir réttindum mínum og ég sé ekki eftir að hafa byrjað í faginu. En núna get ég sagt að ég er ekki fötluð í mínum huga [...] Við sem myndum samfélagið þurfum á fötlunarfræði að halda til að breyta viðhorfi fólks og reyna að bæta aðgengi fatlaðra,“ sagði Ásdís Jenna í grein í Morgunblaðinu árið 1998. Hún skrifaði oft greinar í blöð og tímarit, var í viðtölum og um hana var á sínum tíma gerð sjónvarpsmynd. Þá sinnti hún kveðskap og árið 1990 sendi hún frá sér ljóðabókina Ég hugsa eins og þið, sem fékk góðar viðtökur.

Eftirlifandi eiginmaður Ásdísar Jennu er Kevin Kristófer Oliversson. Sonur þeirra er Adam Ástráður, sem er níu ára gamall.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert